Loftskeytastöðin
Gamla loftskeytastöðin

Menningarhús með margþætt hlutverk

Loftskeytastöðin er menningarhús og starfar í anda Vigdísar Finnbogadóttur með menningu, tungumál, náttúruvernd, jafnrétti og menntun að leiðarljósi. Hlutverk miðstöðvarinnar er í senn að miðla þekkingu á frjóan og fjölbreyttan hátt og að vera vettvangur þverfaglegs samtals.

Loftskeytastöðin er framsækinn og lifandi staður sem endurspeglar sköpunarkraft og fræðastarf Háskóla Íslands. Auk sýningarinnar „Ljáðu mér vængi. Ævi og störf Vigdísar Finnbogadóttur“ mun Loftskeytastöðin hýsa fjölbreytta menningarstarfsemi og viðburði. Staðsetning hússins á háskólasvæðinu gefur einnig færi á að eiga í samtali við fræðafólk af ólíkum fræðasviðum. Í húsinu verður þannig boðið upp á aðstöðu til fræðastarfs, rannsókna og miðlunar og er áhugasömum um slíkt bent á að hafa samband við forstöðumann (mariatholaf@hi.is).

 

Loftskeytastöðin rís

Loftskeytastöðin er sögufrægt hús sem byggt er á árunum 1915-1917 og er ein fárra opinberra bygginga sem vígð var árið 1918. Höfundur hússins var Einar Erlendsson byggingarfræðingur, síðar húsameistari ríkisins, og teiknaði hann fjölda vandaðra og þekktra húsa í Reykjavík og víðar.

Þann 17. júní árið 1918 hófst starfsemi Loftskeytastöðvarinnar í húsinu og var þar með, að margra mati, uppfylltur gamall draumur um hina fullkomnu loftskeytastöð á Íslandi. Stöðin var starfrækt í húsinu allt til ársins 1961. Byggingin, sem nú er í eigu Háskóla Íslands, hefur alla tíð dregið nafn sitt af starfsemi Loftskeytastöðvarinnar.

Efst á voldugum boga yfir aðaldyrum stöðvarinnar er hvítur fálki á bláum skildi, skjaldarmerki Íslands á árunum 1903-1918, hér hluti af einkennismerki Landsímans. Trúlega er Loftskeytastöðin eina opinbera byggingin til að skarta þessu skjaldarmerki. Rafbylgjurnar beggja vegna skjaldarins á Loftskeytastöðinni minna enn á mikilvægi þessa húss í fjarskiptasögu landsins en með tilkomu Loftskeytastöðvarinnar komst Ísland í fyrsta sinn í þráðlaust samband við umheiminn.

Loftskeyti eru í raun útvarpsbylgjur sem eru ein tegund af rafsegulbylgjum og voru send með mors-kóða. Kóðinn er eins konar stafróf þar sem bókstafir eru myndaðir með stuttum og löngum einingum. Upphaflega var hægt að senda skeyti um 750 km í dagsbirtu en í myrkri allt að 1500 km. Í Loftskeytastöðinni hófust þráðlausar skeytasendingar til íslenskra skipa, héðan var útvarpað í fyrsta sinn auk þess sem stöðin var tengiliður landsins við útlönd ef sæsíminn brást. 

Loftskeytastöðin í hendur Þjóðminjasafns og Háskóla Íslands

Húsið var afhent Þjóðminjasafni Íslands 1. mars 2005 til umráða og umsýslu og skyldi safnið frá þeim tíma sjá um rekstur og ráðstöfun þess samkvæmt nánara samkomulagi við Háskóla Íslands.

Árið 2013 varð Þjóðminjasafnið háskólastofnun og að tillögu safnsins féllst forsætisráðherra á að Háskóli Íslands tæki við ábyrgð Loftskeytastöðvarinnar til afnota í þágu starfsemi skólans árið 2015. Við undirritun samningsins tók Háskóli Íslands við ábyrgð hússins, viðhaldi og viðgerðum auk þess að velja húsinu viðeigandi hlutverk sem hæfir sögu þess og byggingarsögulegu gildi, svo sem á sviði skipulags-, umhverfis- og menningarfræða og tæknigreina. Samkvæmt samningnum skyldi Háskóli Íslands sjá til þess að saga hússins á sviði fjarskipta yrði þar sýnileg.

Frá og með árinu 2015 var Loftskeytastöðin enn fremur friðuð á grundvelli laga um menningarminjar.

Húsaleigusamningur milli Náttúruminjasafnsins og Háskólans var undirritaður í júlí 2015. Náttúruminjasafnið hafði haft afnot af Loftskeytastöðinni frá árinu 2010 en árið 2020 flutti starfsemi Náttúruminjasafns úr húsinu og ákveðið að fara í viðamikið viðhald. 

Viljayfirlýsing um opnun sýningar um ævi og áhrif Vigdísar Finnbogadóttur var undirrituð við hátíðlega athöfn sem efnt var til hinn 17. júní 2021 í tilefni af 110 ára afmæli skólans. Við það tækifæri tilkynnti Vigdís um gjöf sína til Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og afhenti fyrstu gripina. 

Sjá einnig umfjöllun um Loftskeytastöðina á vísindavef HÍ. 

Kort af háskólasvæðinu

Kort af háskólasvæðinu