Loftskeytastöðin leggur áherslu á fjölbreytta menningarstarfsemi og viðburði. Hér að neðan má finna upplýsingar um viðburði á næstunni og sýningar í kjallara hússins.

Gildi orðanna

Sýningin Gildi orðanna, sem er á neðri hæð Loftskeytastöðvarinnar fjallar um brotthætt orð, viðkvæm tengsl og tungumál í útrýmingarhættu. Orðin halda heiminum saman, þau endurnýja sífellt merkingu sína þrátt fyrir að þau virðist oft söm við sig. 

Í frægri grein sinni „List eftir heimspeki“ lýsti bandaríski konseptlistamaðurinn Joseph Kosuth (f. 1945) því yfir að listin væri tungumál og listaverkin stakar setningar sem stundum birtast sem einstök orð stútfull af merkingu. Aðskilnaður fagurfræði og lista var samt ekki jafn afdráttarlaus og Kosuth vildi vera láta í sínum eigin verkum sem einkennast af þurrum orðabókarskilgreiningum og hlutlausum svarthvítum ljósmyndum.

En hugsunin um óheft tengsl texta og myndlistar sprengdi upp allar fyrri listskilgreiningar og nýr óplægður akur birtist áhorfendum jafnt sem myndlistarmönnum. Stundum tóku orðin sig á flug og urðu að sjálfstæðum verum eins og í verkum Lawrence Weiner. Aðrir vinna með skriftina, örnefnin og tengsl þeirra við landslagið, merkingu tungumálsins, og þær víðlendur sem orðin opna í huga og mynd.

Sýrfellshraun, Eldvarpahraun, Berghraun, Illahraun. Orðasafn Roni Horn fær nýja merkingu í ljósi nýliðinna atburða og eldvirkni á Reykjanesi. Orð verður tími í örverkum Kristins E. Hrafnssonar. Landið birtist í mjúkum mosaþembum, dalverpum og þúfnakollum í örnefnum Kristínar frá Munkaþverá. Heitum sem eru jafn viðkvæm og forgengileg og fínleg skrift hennar. Hversdagshetjurnar stíga fram í mannlýsingum Birgis Andréssonar og Guðný Rós minnir á að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Önnur verk minna á þyngd orðanna, gildi þeirra og boð sem alþjóðasamfélagið hefur komið sér saman um. „Enginn skal að geðþótta handtekinn, sviptur frelsi eða gerður útlægur“, segir í níunda grein mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna – orð sem virðast bráðna eins og kökuskreyting í verki Sigurðar Guðmundssonar.